Tekist verður á um launakröfu Ólafs Sörla Kristmundssonar, fyrrverandi fjármálastjóra eignarhaldsfélagsins Northern Travel Holding í Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudag.

Ólafur lýsti kröfu í þrotabúið á sínum tíma vegna ógreiddra launa á grundvelli ráðningasamnings upp á tæpar 4,8 milljónir króna. Deilan snýst um það hvort um forgangskröfu sé að ræða eða ekki og hvort hún njóti ábyrgðar Ábyrgðarsjóðs launa. Óskar Sigurðsson, skiptastjóri þrotabús Fons og Northern Travel Holding, hafnaði því á sínum tíma að launakrafa Ólafs væri forgangskrafa og var hún borin fyrir dóminn.

Pálma Haraldsson vildi skrá félagið á markað

Northern Travel var stofnað árið 2006 og var í eigu FL Group, Fons, félags í eigu Pálma Haraldssonar, og Sunds. Tveir starfsmenn voru á launum hjá félaginu.

Fons setti norræna flugfélagið Sterling inn í Northern Travel Holding ásamt Iceland Express, 51% hlut í breska leiguflugfélaginu Astraeus, 29,26% hlut í sænsku ferðaskrifstofunni Ticket og danska ferðaskrifstofan Hekla Travel. Pálmi var jafnframt stjórnarformaður Northern Travel Holding. Hann sagði í samtali við fréttaþjónustu Børsen rétt fyrir áramótin 2006 að stefnt væri að því að félagið skilaði hagnaði árið eftir og væri stefnt að því að skrá það á hlutabréfamarkað eftir tvö ár eða svo.

Svo fór ekki en Northern Travel Holding fór í þrot í september 2009. Heildarkröfur í búið nema 35,8 milljörðum króna. Þar af er Fons langstærsti kröfuhafi félagsins með næstum allar kröfur, rétt tæpar 35,8 milljarða króna.

Litlar eignir voru eftir í félaginu við gjaldþrotið þar sem Astraeus og Iceland Express höfðu verið seld út úr félaginu til félaga í eigu Pálma. Sterling hafði farið í þrot ári fyrr.

Viðskiptablaðið gaf í október árið 2010 út sérblað með greinarflokki blaðsins um fléttuna sem tengdist viðskiptunum sem fólust í stofnun og endalokum Northern Travel Holding.

Greinarnar birtust í þremur hlutum í Viðskiptablaðinu í september sama ár. Áskrifendur geta nálgast sérblaðið hér .