Misjafnlega var staðið að launalækkunum ríkisstofnana á árinu 2009 og sumstaðar voru laun ekki lækkuð. Umboðsmaður Alþingis sendi fjármálaráðherra fyrirspurn vegna málsins 28. mars sl. og spurði meðal annars hvernig samræmis og jafnræðis hafi verið gætt gagnvart starfsmönnum ríkisins.

Í fyrirspurninni er vísað í tillögu fjármálaráðherra sem samþykkt var á ríkisstjórnarfundi í ágúst 2009. Samþykktin kvað á um að heildarlækkun launa umfram 400 þúsund á mánuði hjá starfsfólki stjórnarráðsins yrði á bilinu 3-10%, og „að fjármálaráðuneyti og hluteigandi fagráðuneyti útfæri leiðir til að ná fram samsvarandi lækkun launa umfram 400 þúsund krónur á mánuði hjá stofnunum ríkisins, í samstarfi við forstöðumenn“.

Svaraði Umba á þriðjudaginn

Umboðsmanni barst svar frá fjármálaráðuneytinu síðastliðinn þriðjudag. Upphaflegur svarfrestur var til 15. apríl en hann var framlengdur. Í svarinu segir að ráðuneytið telji að í samþykkt ríkisstjórnarinnar frá ágúst 2009 felist ekki samræmd ákvörðun um launalækkun starfsmanna allra opinberra stofnana. Fjármálaráðuneytið lét Viðskiptablaðinu í té útdrátt úr svarbréfinu þar sem helstu rök ráðuneytisins koma fram.

Fyrirspurn Umboðsmanns var send vegna ábendinga um að framkvæmd lækkana hafi verið mismunandi milli stofnana. Í því geti falist mismunun milli starfsmanna og óskaði Umboðsmaður eftir gögnum, með það í huga að taka ákvörðun um hvort tilefni sé til að hann fjalli um málið að eigin frumkvæði. Að mati fjármálaráðuneytisins verður að gera skýran greinarmun á launalækkunum hjá starfsmönnum ráðuneyta annarsvegar og hjá starfsmönnum annarra stofnana hinsvegar.

Ákvörðun í höndum forstöðumanna

Eins og áður segir telur ráðuneytið að samþykkt ríkisstjórnarinnar feli ekki í sér samræmda ákvörðun um launalækkanir, enda sé það vandséð hvernig hægt væri að framkvæma samræmda ákvörðun um launalækkun hjá öllum ríkisstofnunum „í ljósi þess lagaumhverfis sem þær búa við“.

Ákvörðun um lækkun launa hafi því á endanum verið í höndum forstöðumanns hverrar ríkisstofnunar fyrir sig. Ákvörðun forstöðumanns hafi verið tekin á grundvelli fjárheimildar stofnunarinnar með samkomulagi við starfsmenn, eða með einhliða ákvörðun í samræmi við reglur starfsmannalaga og kjarasamninga, segir í svarbréfinu. Í ljósi þess hversu mismunandi stofnanir ríkisins eru telur fjármálaráðuneytið að jafnræðisreglan eigi ekki við þegar gerður er samanburður á framkvæmd launalækkananna.