Launalækkun forstjóra nokkurra ríkisstofnana hafði engin áhrif á kjör þeirra heldur halda þeir launum samkvæmt úrskurðum kjararáðs þar til laun þeirra hafa hækkað á ný á sama stað. Þetta kemur fram í nýbirtu áliti frá settum umboðsmanni Alþingis.

Hið sáluga kjararáð var lagt niður með lögum sem tóku gildi sumarið 2018. Svanasöngur ráðsins fólst í að afgreiða hluta þeirra erinda sem voru á borði þess en öðrum var einfaldlega ekki svarað. Þau embætti sem áður heyrðu undir ráðið voru flest færð undir ákvörðunarvald kjara- og mannauðsskrifstofu fjármálaráðuneytisins en hluti fær laun samkvæmt fastákveðinni tölu í lögum.

Kjara- og mannauðsskrifstofan flokkaði störfin upp á nýtt og birti nýja launatöflu í byrjun árs 2019. Samkvæmt henni hækkaði meira en helmingur í launum, þar af fékk tæpur fjórðungur meira en tíu prósent hækkun, en tæplega þriðjungur lækkaði í launum. Mesta krónutöluhækkunin var 355 þúsund króna hækkun hjá veðurstofustjóra en hæsta prósentuhækkunin 29% hjá forstjóra Þjóðskrár. Mesta lækkunin var 15% lækkun en aðrir lækkuðu um minna.

„Gildandi úrskurður kjararáðs um laun [starfsins] mælir fyrir um hærri heildarlaun en leiðir af hinu nýja grunnmati. Úrskurður kjararáðs mun halda gildi sínu þar til launaákvörðun samkvæmt framangreindu grunnmati starfs, að teknu tilliti til almennra launahækkana, verður jöfn núverandi heildarlaunum,“ sagði í bréfum sem ráðuneytið sendi forstjórum sem lækkuðu í launum.

Tveir ríkisforstjórar kröfðust rökstuðnings af hálfu ráðuneytisins vegna lækkunarinnar en fengu ekki. Afstaða ráðuneytisins var sú að það teldi þetta vera stjórnvaldsfyrirmæli en ekki stjórnvaldsákvörðun og því bæri ekki að rökstyðja niðurstöðuna. Tvímenningarnir undu því ekki og kvörtuðu til umboðsmanns Alþingis.

Í niðurstöðu setts umboðsmanns Alþingis segir að ákvörðun ráðuneytisins um röðun starfa í grunnmat væri svo nátengd ákvörðun launa að þar yrði ekki slitið í sundur. Ákvarðanir um laun til forstöðumanna ríkisstofnana væru tekin einhliða af ráðuneytinu á grundvelli laga, ólíkt öðrum störfum þar sem sami er um kaup og kjör, og beindust að lögbundnum réttindum fólks sem þeim gegndi.

Af þeim sökum yrði að játa forstjórunum að eiga aðild að málunum og þar með þeim réttindum sem stjórnsýslulögin og óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttarins tryggja borgurum. Settur umboðsmaður beindi því til ráðherra að taka erindi forstöðumannanna til skoðunar á nýjan leik kæmi beiðni um slíkt fram og að ábendingar í álitinu yrðu hafðar til hliðsjónar í framtíðinni.