*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 10. mars 2015 14:12

Launamunur kynja lítill innan Landsbankans

Launamunur kynjanna hjá Landsbankanum er innan við 3,5%, samkvæmt jafnlaunaúttekt PwC.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Landsbankinn er fyrstur banka á Íslandi til að hljóta gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC og er jafnframt stærsta fyrirtækið sem hefur undirgengist og staðist þá úttekt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Gullmerki jafnlaunavottunar veitist fyrirtækjum þar sem launamunur kynja er innan við 3,5% og staðfestir viðurkenningin því að launamunur kynja hjá Landsbankanum sé innan þeirra marka.

Í Jafnlaunaúttekt PwC er gerð grein fyrir mun á grunnlaunum, föstum launum og heildarlaunum eftir kyni, þar sem tekið er mið af aldri, starfsaldri, menntun, starfaflokki, stöðu í skipuriti og vinnustundum. Rúmlega 1.100 manns starfa hjá Landsbankanum, þar af eru 39% karlar og 61% konur.

„Í Landsbankanum höfum við lagt mikla áherslu á jafnréttismál á undanförnum árum. Gullmerki PwC er mikilvæg staðfesting á stöðu jafnréttismála í bankanum og hvatning til að viðhalda þeirri stöðu til framtíðar. Við teljum að jafnrétti efli bankann og styrki stöðu hans í samkeppni um góða starfsmenn,“ segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans.