Írska flugfélagið Ryanair áætlar að skera niður 3.500 störf ef ekki næst samkomulag við starfsfólk um  launaskerðingar, en þetta er haft eftir Michael O‘Leary, forstjóra flugfélagsins, í frétt Reuters .

Ryanair, stærsta lággjaldaflugfélag Evrópu, hefur áður tilkynnt að um 250 manns á skrifstofum þess í Evrópu hafi verið sagt upp og að félagið væri að horfa til frekari 3.000 uppsagna meðal flugmanna og þjónustuáhafna.

„Við höfum þegar tilkynnt um 3.500 uppsagnir en við eigum í umfangsmiklum viðræðum við flugmenn og þjónustuáhafnir og erum að biðja þau öll um að taka launaskerðingu í stað uppsagna,“ sagði O‘Leary við BBC.

„Við erum að horfa til 20% [launalækkun] hjá best launuðu flugmönnunum og 5% hjá tekjulægstu flugþjónunum. Við teljum að ef við getum samið um þessar launalækkanir þá komumst við hjá flestum en ekki öllum uppsögnum.“