Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir að það yrði grátlegt að horfa upp á launaskrið á komandi misserum. Á árunum 2018-2020 renna út fjölmargir kjarasamningar, eða alls 227.

Íslandsbanki birti í vikunni uppfærða þjóðhagsspá þar sem spáð er 2,3% hagvexti í ár og á næsta ári. Er það hagvöxtur sem samræmist hagvexti þróaðra ríkja.

„Það væri grátlegt að horfa upp á það að stöðugleikanum sé kastað fyrir róða vegna mikilla nafnlaunahækkana sem brenna síðan í verðbólgubáli. Svigrúm fyrirtækja til að greiða hærri laun án þess að velta því út í verðlagið er einfaldlega ekki til staðar lengur. Það er áhættuþáttur sem er algjörlega undir okkar eigin stjórn,“ segir Jón Bjarki í samtali við Viðskiptablaðið.

Í síðustu kjarasamningalotu árið 2015, þegar samið var um miklar launahækkanir, spáðu greiningaraðilar mun meiri verðbólgu en á endanum varð raunin. Þrátt fyrir miklar launahækkanir hefur verðbólga haldist lág og stöðug. Greiningaraðilar, til dæmis efnahagssvið Samtaka atvinnulífsins og Seðlabanki Íslands, hafa þó bent á að það eigi meira skylt við heppni en nokkuð annað. Ytri skilyrði hafi verið hagstæð - viðskiptakjör bötnuðu, krónan styrktist, olíuverð lækkaði mikið og veldisvöxtur varð á ferðaþjónustunni - ásamt því að spenna hefur verið á vinnumarkaði og tollar og vörugjöld felld niður.

Íslendingar hafa oft sýnt að þeir eru fullfærir um að tefla góðri efnahagsstöðu í tvísýnu með heimatilbúnum vandræðagangi. En sem lítið, opið hagkerfi með eigin mynt er Ísland jafnframt berskjaldað fyrir ytri áföllum.

„Stærsti áhættuþátturinn þar er bakslag í ferðaþjónustunni, svo sem vegna náttúruhamfara eða kreppu í heimalöndum þeirra ferðamanna sem hingað koma. Spár gera hins vegar ráð fyrir áframhaldandi en hægari fjölgun ferðamanna – sem samræmist betur getu hagkerfisins og innviða til að taka á móti þeim – og hagvöxtur hefur verið að glæðast meðal landa heims,“ segir Jón Bjarki.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .