Launavísitala í mars 2016 er 568,8 stig og hækkaði um 0,9% frá fyrri mánuði. Síðastliðna tólf mánuði hefur launavísitalan hækkað um 13,3%. Þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar um þróun vísitölu launa.

Þá var vísitala kaupmáttar launa í mars 2016 134,8 stig og hækkaði um 0,5% frá fyrri mánuði. Síðustu tólf mánuði hefur vísitala kaupmáttar launa hækkað um 11,6%.

Í frétt Hagstofu segir að í vísitölunni gæti enn áhrifa nýrra kjarasamninga á vinnumarkaði, svo sem aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands við Samtök atvinnulífsins sem skrifað var undir hinn 21. janúar 2016.