Launavísitala hækkaði um 0,7% í júlí og stendur nú í 348,8 stigum.

Í hækkun vísitölunnar gætir áhrifa kjarasamnings 20 aðildarfélaga Bandalags háskólamanna (BHM) og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Sá samningur var undirritaður 28.júní síðastliðinn og fól í sér 20.300 kr. launahækkun aðildarfélaga frá 1.júní 2008.

Þá hefur kjarasamningur Kennarasambands Íslands einnig áhrif til hækkunar vísitölunnar. Sá samningur var undirritaður af fjármálaráðherra og Kennarasambandinu sem gerði hann fyrir hönd Félags framhaldsskólakennara. Var hann undirritaður þann 16.júní. Laun félagsmanna hækkuðu einnig um 20.300 kr.

Samanlagt hefur launavísitalan hækkað um 9,1% síðastliðna tólf mánuði.