Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands hækkaði launavísitalan um 3,3% milli mars og apríl. Þetta er meðal þess sem fram kemur í Hagsjá Landsbankans .

„Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 6,8%, sem er mun meiri ársbreyting en verið hefur síðustu mánuði. Þar sem verðbólga hefur verið lítil þýða þessar miklu launabreytingar að kaupmáttur tók stökk upp á við. Kaupmáttur launa jókst þannig um 2,8% milli mars og apríl og var 4,5% meiri nú í apríl en í apríl í fyrra. Sú staða er reyndar mjög athyglisverð í ljósi þess að hallað hefur verulega undan fæti í efnahagslífinu,“ segir í Hagsjánni.

Þá segir jafnframt að í kjarasamningum allra síðustu ára hafi í talsverðum mæli verið samið um styttingu vinnutíma. Slík ákvæði eru mismunandi en geta haft áhrif á launavísitölu ef þau eru ígildi launabreytinga. Sömu greiðslur fyrir styttri vinnutíma hækka verð á hverri vinnustund.

„Nokkrar svona breytingar í kjarasamningum tóku gildi um síðustu áramót. Frá nóvember 2019 fram til apríl 2020 hækkaði launavísitalan um 4,8% og er mat Hagstofunnar að 0,7% þeirrar breytingar hafi komið til vegna vinnutímastyttingar. Launavísitalan hefði því hækkað um 4,1% á þessu tímabili hefði vinnutímastytting ekki komið til.“