*

laugardagur, 15. ágúst 2020
Innlent 22. maí 2020 10:25

Launavísitalan hækkar um 3,3%

Launavísitala Hagstofunnar hækkaði um 3,3% milli mars og apríl. Vísitalan hefur hækkað um 6,8% á síðustu tólf mánuðum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Launavísitala í apríl síðastliðnum hækkaði um 3,3% frá fyrri mánuði. Þar gætir meðal annars áhrif launahækkana sem samið var um í kjarasamningum. Sé horft til síðustu tólf mánaða hefur launavísitalan hækkað um 6,8% en þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar

Um er að ræða kjarasamninga bæði á almennum vinnumarkaði og hjá opinberum starfsmönnum, en stór hluti launafólks á íslenskum vinnumarkaði fékk kjarasamningshækkun í aprílmánuði.

Skrifað var undir nokkra afturvirka kjarasamninga í mars, til að mynda hjá félagsmönnum innan BSRB, sem kveða á um launahækkanir ýmist 1. apríl 2019 eða 1. janúar 2020 auk launahækkunar 1. apríl síðastliðinn. Þessir samningar voru framkvæmdir 1. apríl 2020 og hafa því áhrif á launavísitöluna fyrir aprílmánuð.  

Breytingar vegna skerts starfshlutfalls, fjarveru frá vinnu, eða uppsagna af völdum faraldursins hafa almennt ekki áhrif á vísitöluna þar sem henni er ætlað að endurspegla verðbreytingu vinnustundar fyrir fastan vinnutíma. Hins vegar hafa breytingar á reglulegum aukagreiðslum eins og álags- og bónusgreiðslum áhrif á launavísitöluna. 

Stikkorð: Hagstofan launavísitala