Launavísitalan hækkaði um 0,6% í nóvember í fyrra, segir greiningardeild Íslandsbanka, og hækkuðu launin í landinu um 7,2% á árið 2005.

Kaupmáttur neytenda hefur því vaxið um 2,9% en verðbólgan í desember mældist 4,1%.

Stór hluti verðbólgunnar stafar af mikilli hækkun íbúðaverðs. Því hefur kaupmáttur flestra neytenda vaxið umtalsvert meira, segir greiningardeild Íslandsbanka.

Skýrir það gífurlegan vöxt einkaneyslu sem sést hefur að undanförnu, að minnsta kosti að hluta, segir greiningardeildin.

Spenna ríkir á vinnumarkaði þar sem atvinnuleysi í landinu er mjög lítið og þrýstingur til hækkunar launa er afar mikill.

Í næstu mælingu á launavísitölunni reiknar greiningardeild Íslandsbanka með 2,5% til 3% hækkun vegna kjarasamninga og launaskriðs.

Í þeirri mælingu mun koma fram tæplega helmingur launahækkunar ársins, segir greiningardeild Íslandsbanka, en hún reiknar með 6,5% hækkun launavísitölunnar á milli ára.