Vísitala heildarlaunakostnaðar á fyrsta ársfjórðungi þessa árs hækkaði um 2,1% í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð samanborið við sama tímabil árið áður. Vísitalan  lækkaði hinsvegar í verslun og ýmissi viðgerðarþjónustu um 1,7%, í samgöngum og flutningum  um 0,9% og í iðnaði um 0,4%. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofu Íslands.

Á sama tímabili hækkaði vísitala heildarlaunakostnaðar án óreglulegra greiðslna um 3,8 % til 5,4%, mest í samgöngum og flutningum en minnst í verslun og ýmissi viðgerðarþjónustu.


"Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði kváðu almennt á um 2,9% hækkun launataxta frá 1. janúar 2007. Tryggingagjald lækkaði um 0,45% frá áramótum og er nú 5,34%. Þá hækkaði mótframlag atvinnurekanda til samtryggingarlífeyrissjóðs úr 7% í 8% á sama tíma," segir í tilkynningu Hagstofunnar.