Launavísitalan hækkaði um 4,1% á fyrsta ársfjórðungi frá fyrri fjórðungi, að því er segir í tilkynningu frá Hagstofunni. Launavísitala á almennum vinnumarkaði hækkaði um 4,2%, en mismunandi er milli starfstétta hversu mikil hækkunin var. Laun hækkuðu mest hjá þeim er starfa við fjármálaþjónustu, lífeyrissjóði og vátryggingar, um 6,5%, en hækkunin í iðnaði var minnst, um 3,4%. Launavísitala opinberra starfsmanna hækkaði um 3,7% á tímabilinu.

Launavísitala hefur hækkað um 11% frá fyrsta ársfjórðungi, og hækkaði launavísitala á almennum vinnumarkaði um 11,7% og launavísitala opinberra starfsmanna um 9,5%.

Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði kveða á um 2,9%-3,65% hækkun launataxta frá 1. janúar 2007. Í hækkun vísitölunnar gætir einnig áhrifa sérstaks samkomulags Sambands íslenskra bankamanna og Samtaka atvinnulífsins frá 28. ágúst sl. sem kvað á um sérstakar taxtahækkanir frá 1. janúar 2007 til samræmis við hliðstætt samkomulag Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins frá 22. júní 2006. Samkvæmt almennum kjarasamningum opinberra starfsmanna hækkuðu launataxtar þeirra um 2,9-3,0% um áramót.