Laun í landinu hækkuðu að meðaltali um 0,5% í apríl samkvæmt launavísitölu sem Hagstofan birti í morgun. Stafar hækkunin einkum af samningsbundnum launahækkunum á almenna markaðinum sem og hjá hinu opinbera en launaskrið reyndist lítið. Laun hafa hækkað um 6,7% á síðustu tólf mánuðum og er það að mestu vegna kjarasamningsbundinna hækkana. Launaskrið hefur verið lítið þó svo að atvinnuleysi hafi minnkað og slaki sá sem var á vinnumarkaði sé nú horfinn. Kaupmáttur launa hefur aukist um 2,3% á tímabilinu. Vöxtur kaupmáttar hefur verið fremur stöðugur að undanförnu en þó minni en oft áður.

Í Morgunkornum Íslandsbanka kemur fram að líklegt er að laun hækki áfram og launaskriðs verði vart á næstu misserum í ljósi mikils hagvaxtar. Vinnuaflsþörf hagvaxtarins hefur hins vegar að stórum hluta verið mætt með erlendu vinnuafli og er líklegt að svo verði áfram. Má greina það af miklum fjölda nýrra starfa um þessar mundir á vinnumiðlunum að skorti á vinnuafli er ekki mætt með hækkun launa heldur innflutningi vinnuafls.