*

laugardagur, 8. ágúst 2020
Innlent 22. júní 2020 12:47

Launavísitalan tekur stökk

Launavísitalan hefur hækkað um 6,4% síðustu 12 mánuði en 0,3% milli mánaða, útlit er fyrir hægari vöxt á seinni helming ársins.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Launavísitalan hækkaði um 0,3% milli apríl og maí en 3,3% milli mars og apríl samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 6,4%,sem er aðeins minni ársbreyting en var í síðasta mánuði. Frá þessu er greint á vef Landsbankans.

Árshækkunartaktur launavísitölunnar var rúmlega 4% allan seinni hluta ársins 2019, en tók stökk upp á við nú í apríl og maí.

Það sem af er árinu hefur launavísitalan hækkað að meðaltali um 1% á mánuði. Útlit er fyrir að hægja muni á hækkun vísitölunnar á seinni helmingi ársins þar sem næstu áfangahækkanir samkvæmt kjarasamningum verða ekki fyrr en 1. janúar á næsta ári, verði kjarasamningar enn í gildi þá. Samkvæmt ákvæðum samninga á að fara fram mat á forsendum þeirra í september.

Sé litið á launabreytingar hjá stóru hópunum á vinnumarkaðnum frá 1. ársfjórðungi 2019 fram til sama tíma 2020 sést að launin á almenna markaðnum hækkuðu um 5,6% á þessum tíma á meðan þau hækkuðu um 2,9% á þeim opinbera. Mæld launavísitala hækkaði um 4,9% á sama tíma.

Þessar tölur ná einungis fram á 1. ársfjórðung í ár og er ljóst að frá og með apríl 2020, þegar áhrif kjarasamninga á almenna markaðnum komu að fullu inn í launavísitöluna, mun þessi munur sem myndaðist á síðasta ári á milli almenna og opinbera markaðarins fara að renna aftur í eðlilegt horf.

Miðað við stöðu hagkerfisins getur þessi mikla hækkun talist eilítið einkenileg en mikilvægt er að hafa í huga að launavísitölunni er ætlað að sýna launabreytingar fyrir fastan vinnutíma. Breytingar á vikulegum vinnutíma og fjöldi vinnustanda koma því ekki fram.

Launavísitalan endurspeglar þannig verðbreytingu vinnustundar fyrir fastan vinnutíma og er því eki góð aðferð til að mæla tekjuþróun, fremur ætti þá að líta til vísitölu heildarlauna.