Í ársreikningi KSÍ kemur fram að laun til Geirs Þorsteinssonar, formanns sambandsins, og Þóris Hákonarsonar framkvæmdastjóra hafi samtals numið 30,4 milljónum króna í fyrra. Í ársreikningi fyrir árið 2012 kemur fram að laun þeirra þá hafi numið samtals 26,6 milljónum. Þau hafa því hækkað um 3,8 milljónir á tveimur árum eða um ríflega 14%, sem er nokkuð umfram hækkun vísitölu launa, sem hækkaði um 10,5% á sama tímabili.

Spurður hvernig skiptingin á milli formanns og framkvæmdastjóra sé svarar Geir: "Ég er ekki með það alveg í handraðanum. Ég held að þetta sé svona mjög álíka, en kannski ekki alveg nákvæmlega jafnt." Spurður hvort hann sem formaður sé þá með hærri tekjur en framkvæmdastjórinn? "Ég er nú ekki viss um það. Það gæti alveg fallið hinum megin." Geir segir að frá því að hann tók við formennsku árið 2008 hafi hans laun ekki hækkað umfram vísitölu launa. "Hvað mig varðar þá er þetta langt undir launavísitölu."

Spurður hvort dagpeningagreiðslur frá UEFA eða FIFA til hans og annarra starfsmanna séu umtalsverðar svarar Geir: "Ég held að það sé ofsögum sagt að þetta séu háar fjárhæðir. Þeir sem taka að sér verkefni fá auðvitað dagpeninga en þurfa líka standa straum af ýmsum kostnaði, gistingu og svo framvegis. Ég held að ég hafi verið eftirlitsmaður á þremur leikjum í fyrra og Þórir kannski fjórum þannig að þetta er ekki stór þáttur í okkar launum."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .