*

mánudagur, 13. júlí 2020
Innlent 14. nóvember 2019 12:04

Launþegum fækkar um 8,2% í ferðaþjónustu

Launþegum fækkar umtalsvert í atvinnulífinu en opinberum starfsmönnum fjölgar mikið.

Ritstjórn
Launþegum í ferðaþjónustu fækkaði um 2.500 milli ára í september síðastliðnum.
Haraldur Guðjónsson

Frá október 2018 til september 2019 voru að jafnaði 18.536 launagreiðendur á Íslandi og hafði þeim fjölgað um 244 eða um 1,3% frá síðustu 12 mánuðum þar á undan. Á sama tímabili greiddu launagreiðendur að meðaltali um 194.300 einstaklingum laun sem er aukning um 900 eða hálft prósent samanborið við 12 mánaða tímabil ári fyrr.

Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar um nýjar upplýsingar um fjölda launagreiðenda og launþega í september. 

Launþegum hefur í heild fækkað um 2.000 eða um 1% frá september. Launþegum í viðskiptahagkerfinu fækkaði um 3,8% eða 5,300 samanborið við september 2018. Mest fækkaði launþegum í einkennandi greinum ferðaþjónustu sem voru 28.200 talsins í nýliðnum september sem er fækkun upp 2.500 frá sama mánuði í fyrra eða 8,2%. 

Um fækkun var að ræða í öllum undirliðum atvinnulífsins en hvergi nærri eins mikil og í ferðaþjónustu. Næst mest fækkaði launþegum í framleiðslu að sjávarútvegi undanskildum eða um 500 sem jafngildir 2,7% fækkun.

Töluverð fjölgun var hins vegar að ræða hjá starfsmönnum hins opinbera. Launþegum í fræðslustarfsemi og opinberri stjórnsýslu fjölgaði um tæp 7% eða um 2.900 frá september 2018 og eru nú 44.600 talsins. Þá fjölgaði launþegum í heilbrigðis- og umönnunarþjónustu um 800 eða 4,4% og eru 18.000 talsins.