Frá ágúst 2018 til júlí 2019, voru að jafnaði 18.489 launagreiðendur á Íslandi og hafði þeim fjölgað um 300 eða um 1,7% frá síðustu 12 mánuðum þar á undan. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofu Íslands um fjölda launþega í júlí. Á sama tímabili greiddu launagreiðendur að meðaltali um 194.500 einstaklingum laun sem er aukning um 1.800 eða 1,0% samanborið við 12 mánaða tímabil ári fyrr. Í júlí 2019 voru um 135.100 launþegar í viðskiptahagkerfinu og hefur þeim fækkað um 5.200 eða um 3,7%  samanborið við júlí 2018. Á sama tímabili hefur launþegum í heild fækkað um 400 eða um 0,2%.

Þegar horft er til ólíkra atvinnugreina hefur mest fækkun launþega átt sér stað í einkennandi greinum ferðaþjónustu eða 2.900 sem jafngidlir 9,2% fækkun frá júlí 2018. Hlutfallslega fækkar næst mest í sjávarútvegi eða um 400 launþega sem jafngildir 5,3% fækkun frá sama tíma í fyrra. Þá fækkaði einni í framleiðslu án fiskvinnslu um 400 launþega sem samsvarar 2,1% fækkun frá júlí 2018.

Mest fjölgaði launþegum í fræðslustarfsemi og opinberri stjórnsýslu eða um 4.600 sem jafngildir nær 10% fjölgun en samtals telur greinin 51.900 launþega. Þá fjölgaði einnig launþegum í heilbrigðis- og umönnunarþjónustu eða um 1.000 sem nær 6% fjölgun frá sama mánuði í fyrra en samstals eru launþegar í heilbrigðisþjónustu 18.500 talsins.

Fyrirvari er í frétt Hagstofunnar þar sem tölurnar byggi á staðgreiðslugögnum og geti því verið misvísandi þegar greiddar séu eingreiðslur sem nái til fyrrverandi starfsmanna, t.d. orlof- eða desemberuppbót. Þá hafi eftir kjarasamninga í vor nokkrir hópar fengið orlofsuppbót greidda í apríl en ekki í maí/júní eins og hafi verið sem valdi því að fækkun launþega milli ára er vanmetin í apríl og ofmetin í maí. Þá verði að hafa í huga að í tölum um launþega eru ekki upplýsingar um einyrkja sem eru með rekstur á eigin kennitölu og greiða sjálfum sér laun, en slíkt rekstrarform er algengt í byggingariðnaði, landbúnaði, hugverkaiðnaði og skapandi greinum svo dæmi séu tekin.