Launþegar voru að meðaltali 193.200 talsins á tímabilinu október 2017 til september 2018, og fjölgaði um 6.600, eða 3,5%, milli ára. Þetta kemur fram í frétt á vef hagstofunnar.

Í september síðastliðnum voru launþegar samtals 195.500 og fjölgaði um 3.900 eða 2,1% milli ára. Mest fjölgaði þeim í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, um 4,9%, þar sem þeir voru 13.700 og fjölgaði um 600 milli ára. Í fræðslustarfsemi og opinberri stjórnsýslu voru þeir 41.800 og fjölgaði um 3,5%, og í framleiðslu án fiskvinnslu voru þeir 18.000 og fjölgaði um 3,4%.

Starfsmönnum í sjávarútvegi fækkaði hinsvegar um 2,9% og voru 8.600 í september, samanborið við 8.900 árið áður. Starfsmönnum í tækni- og hugverkaiðnaði og og smásöluverslun, að undanskildum vélknúnum ökutækjum, fækkaði einnig lítillega, en þeim fjölgaði í öðrum flokkum.