Á tólf mánaða tímabili, frá maí 2016 til apríl 2017, voru að jafnaði 17.079 launagreiðendur á Íslandi og hafði þeim fjölgað um 4,8% frá síðustu tólf mánuðum á undan. Á sama tímabili greiddu launagreiðendur að meðaltali 182.800 einstaklingum laun sem er aukning um 8.500 einstaklinga eða um 4,9% samanborið við 12 mánaða tímabil ári fyrr. Þetta kemur fram í tölum Hagstofu Íslands.

Skipt eftir atvinnugreinum hefur launþegum fjölgað mest milli ára hjá launagreiðendum í byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Hins vegar hefur launþegum fækkað í sjávarútvegi. Í apríl voru 11.500 launþegar í byggingarstarfsemi og hafði launþegum fjölgað um 16% samanborið við apríl 2016. Alls voru 25.100 launþegar í einkennandi greinum ferðaþjónustu og hafði launþegum fjölgað um 16% á einu ári.