Markaðsaukning okkar hefur haldið áfram að aukast og við eigum orðið mjög gott og dreift lánasafn þar sem vanskil eru í lágmarki. Ráðstöfunartekjur í samfélaginu hafa verið aukast, kaupmáttur launa hefur vaxið og við finnum alveg fyrir þessu í okkar viðskiptum, enda sveiflast starfsemi eins og okkar mikið með efnahagslífinu sem verið hefur í uppsveiflu undanfarin misseri og er enn,“ segir Lilja en aðalstarfsemi félagsins snýst um fjármögnun kaupa á ökutækjum og vinnuvélum.

„Samkvæmt nýrri könnun MMR um meðmælavísitöluna kemur Lykill best út af fjármálaog tryggingafélögum. Það fer ágætlega saman við þá tilfinningu að hlutdeild okkar á markaði sé í stöðugum vexti. Í dag eru um 60% viðskiptavina okkar einstaklingar en við hyggjumst leggja enn meiri áherslu á þjónustu við atvinnulífið á komandi misserum og að styrkja stöðu okkar í fjármögnun véla og tækja.“

Þrátt fyrir að tölur Samgöngustofu beri með sér að innflutningur á bílum hafi dregist saman á ný eftir mikla uppsveiflu síðustu ára segir Lilja að félagið sjái lítil merki um það í sínum bókum.

Veltan í nýjum útlánum hefur verið mjög svipuð á milli ára hjá okkur þrátt fyrir að markaðurinn hafi verið að dragast saman í bílalánum og bílasamningum, svo við getum því ekki ályktað annað en að markaðshlutdeild okkar sé enn að aukast,“ segir Lilja, sem segir lánasafn félagsins nú vera dreifðara en það var á árunum fyrir hrun

„Svona fjármögnunarsamningar eins og við bjóðum upp á henta auðvitað margs konar rekstri. Félagið hefur í gegnum árin verið sterkt á verktakamarkaði, en þeir hafa fyrst og fremst verið að kaupa ýmiss konar atvinnutæki. Það sem er öðruvísi núna en á árunum fyrir hrun er auðvitað hve ferðaþjónustan hefur verið að koma sterk inn síðustu ár. Leigusamningar og útlán sem tengjast byggingastarfsemi eru nú um 7,5% af safninu, 12,6% fara til ýmiss konar leigustarfsemi og annarrar sérhæfðrar þjónustu eins og það er kallað og 6% tilheyra heild- og smásölu svo það er ljóst að þetta er mjög dreift.“

Lilja segir efnahagsreikning félagsins vera mjög sterkan en eigið fjárhlutfall Lykils er nú ríflega 42%. „Svo hátt eigið fé gefur mikla vaxtamöguleika en að sama skapi er erfitt að ná viðeigandi arðsemi meðan lánabókin er ekki stærri. Áframhaldandi vöxtur lánabókarinnar verður því væntanlega áhersluatriði næstu missera, án þess að slegið sé af gæðum hennar,“ segir Lilja sem segir vel hafa gengið að sækja fjármagn til uppbyggingar félagsins.

„Við höfum sótt okkur yfir tuttugu milljarða fjármögnun, en það verður að segjast eins og er að innlendi fjármögnunarmarkaðurinn er mjög takmarkaður á Íslandi og ekki eins virkur og við myndum vilja hafa hann. Auðvitað myndum við vilja sjá þar betri kjör, en lífeyrissjóðirnir sem eru væntanlega stærstu kaupendurnir eru í auknum mæli farnir að beina fjárfestingum sínum í eigin sjóðfélagalán og í erlenda fjárfestingu. Eins og staðan er í dag er markaðurinn því það einsleitur að hann þjónar varla þörfum atvinnulífsins. Við vitum hins vegar af áhuga erlendra aðila á skuldabréfaútgáfu okkar, en reglur Seðlabankans um sérstaka bindisskyldu standa slíkum viðskiptum fyrir þrifum. Þó að okkur hafi gengið vel gera reglurnar, sérstaklega minni fjármálafyrirtækjum eins og okkur erfitt fyrir að sækja erlent lánsfé og fjármögnun. Besta lausnin væri því að fella niður bindisskylduna en ef ekki er vilji fyrir því mætti gjarnan skoða að hleypa lengri tíma fjármögnun betur í gegn.“

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .