Lausafé Íslandspósts ohf. er nær uppurið. Vegna þess að félagið er rekið með tapi verður ekki til nægt handbært fé til að greiða út laun eða standa við aðrar skuldbindingar félagsins á næstunni, nema aukin lánsfjármögnun komi til.

„Tapreksturinn er fjármagnaður með lánsfé, það er bara þannig. Það er svo sem ekkert leyndarmál að við erum með yfirdráttarheimildir sem eru nýttar stóran hluta úr mánuði. Þetta er staðan sem er komin upp núna sem við erum búin að vera að vara við seinustu tvö til þrjú ár,“ segir Helga Sigríður Böðvarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Íslandspósts, í samtali við Viðskiptablaðið.

Aðspurð hvort og hvenær sú staða kæmi upp að ekki væri hægt að greiða starfsfólki laun segir hún: „Það er svolítið erfitt að segja. Það var verið að skrifa undir kjarasamninga á þriðjudag sem er að vísu ekki búið að samþykkja í Póstmannafélaginu. Hann hefur veruleg áhrif. Það bara fer að styttast í annan endann. Það fer líka eftir því hvaða lánsfjármögnun við fáum frá bankanum, en ég hef engin tímamörk á því,“ segir hún.

Starfsfólk mun fá greidd laun

Eiríkur Haukur Hauksson, formaður stjórnar Íslandspósts, segir að stjórnendur félagsins muni ekki láta það gerast að starfsfólk fái ekki greidd laun. „Það mun ekki koma til þess, nei. En ef við tökum engin lán, hugsanlega, og bréfamagn heldur áfram að minnka og ekkert yrði gert, þá auðvitað myndi stefna í slíkt. En það kemur ekki til þess,“ segir hann.

Eiríkur segir að neyðarástand sé ekki að skapast í rekstri Íslandspósts, enn sem komið er. „Nei nei, en að sjálfsögðu ef ekkert yrði að gert, þá myndi koma að því.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .