„Lausafé fyrirtækisins er uppurið og bankinn heldur í okkur lífinu eins og staðan er núna. Það er með þeirra góðvild að fyrirtækið er enn starfandi,“ segir Erik Jensen, framkvæmdastjóri sláturhússins B. Jensen á Akureyri, í samtali við Fréttablaðið . Þar er greint frá því að sláturhúsið sé upp á náð og miskunn viðskiptabankans komið vegna verkfalls dýralækna.

Fyrirtækið er eina sláturhúsið á landinu sem er verktakahús í slátrun og hefur lítið sem ekkert verið slátrað hjá því undanfarnar sjö vikur í verkfalli dýralækna hjá Matvælastofnun. „Við höfum verið með 17 starfsmenn á launum allt verkfallið en höfum ekkert fengið inn í tekjur sem getur staðið undir þessum rekstri.“

Erik kveðst ekki skilja að ríkið skuli ekki vera búið að semja við dýralækna. „Hjá okkur erum við að tala um tap sem samsvarar á fjórða tug milljóna og það mun taka langan tíma að reyna að vinna upp þennan halla sem kominn er á reksturinn.“