Lausafjárkrísan á alþjóðlegum fjármálamörkuðum skall harkalega á mörkuðum í Asíu í gær. Fram kemur í frétt The Daily Telegraph að fjárfestar hafi flúið úr áhættusömum eignum víðs vegar í Asíu yfir í eignir sem gefa öruggari ávöxtun.

Gengi hlutabréfa í kauphöllum í Asíu lækkaði mikið víðast hvar. Helsta hlutabréfavísitalan í Kína, CSI 300, féll um 4,5%, sem er mesta lækkun á einum degi í tvær vikur, auk þess sem Hang Seng-hlutabréfavísitalan í Hong Kong lækkaði um 2,3%. MSCI-hlutabréfavísitalan, sem mælir gengisþróun helstu félaga í álfunni, lækkaði um 0,7% í gær og stóð í 153,67 stigum þegar markaðir lokuðu. Hún hefur ekki verið lægri frá því 18. september, daginn sem bandaríski seðlabankinn lækkaði stýrivexti um 50 punkta.

Fjallað er um lausafjárkreppuna í Asíu í erlendum fréttum Viðskiptablaðsins.