Að sögn Ásgeirs Margeirssonar, forstjóra Geysir Green, mun salan á 10,8% hlut í HS Orku til bandaríska fyrirtækisins Magna Energy bæta lausafjárstöðu félagsins.

Sem kunnugt er keypti Geysir Green með nýlegum samningi 34% hlut í HS Orku og átti fyrir 32%. Þar með var Geysir Green komið upp í 66% hlut. Þeir selja nú af því 10,8%. Þegar Geysir keypti sinn hlut af Reykjanesbæ var greitt fyrir það með þrennum hætti. Í fyrsta lagi með með peningum, í öðru lagi með 32% hlut Geysis í HS Veitu og síðan með skuldabréfi. Magna staðgreiðir fyrir sinn hlut.

,,Það að selja eignir getur liðkað lausafjársstöðuog það er liður í þessu,” sagði Ásgeir. Hann sagði að undanfarið hefði félagið gengið á sitt eigiðfé. Hann sagði að félagið hefði ekki tekið arð út úr félögum eins og Jarðborunum við þessar aðstæður þar sem uppbygging væri þar í gangi. Þó væri sjóðsstreymi Jarðboranna gott. Ásgeir sagði að þeir hefðu heldur ekki tekið arð út úr HS Orku á síðasta ári.

- Þurftu þið að bæta lausafjárstöðu ykkar? ,,Hún er búin að vera dálítið óvenjuleg í þessari kreppu allri og þá þurftum við að marka okkur einhverja leið út úr storminum þar sem allt er orðið breytt. Þetta er liður í því.”