Rekstrarhagnaður færeyska olíufélagsins Atlantic Petroleum nam 26,7 milljónum danskra króna á fyrsta ársfjórðungi 2011, rúmlega 580 milljónum íslenskra króna á núverandi gengi. Hagnaður fyrir skatta nam 16,2 milljónum danskra króna, samanborið við 28,4 milljónir króna á sama tímabili í fyrra.

Ben Arabo, forstjóri félagsins, segir í tilkynningu að lausafé sé nú meira en skuldir félagsins og nemur munurinn 4,4 milljónum danskra króna. Sterk lausafjárstaða geri Atlantic Petroleum kleift að fjárfesta til framtíðar. Samkvæmt áætlunum félagsins verða boraðar þrjár tilraunaholur á næstu 12 mánuðum og vonir standa til að holurnar verði fleiri en 10 innan þriggja ára.