Hagnaður Kviku banka á fyrstu níu mánuðum ársins eftir skatta nam 1.337 milljónum króna. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 11,3%. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum til Kauphallarinnar.

Þetta þýðir að hagnaður á þriðja ársfjórðungi nam 413 milljónum króna eftir skatta. Á sama tímabili í fyrra hafði hagnaður bankans verið 1.912 milljónir króna. Afkoman nú var nokkkuð yfir áætlun tímabilsins samkvæmt tilkynningunni.

Undanfarið hafa stjórnir bankans og TM að hefja viðræður um sameiningu félaganna en gert er ráð fyrir því að botn fáist í þær á næstu vikum. Stefnt er að því að núverandi hluthafar TM fái fyrir bréf sín 55% hlut í sameinuðu félagi.

Hreinar vaxtatekjur námu 1.328 milljónum króna og breyttust lítillega á milli ára. Hreinar þóknanatekjur námu 4.329 milljónum króna og jukust um 20% á milli ára. Fjárfestingartekjur námu 352 milljónum króna og drógust saman um 19% á milli ára. Hrein virðisbreyting var neikvæð um 228 milljónir króna og skýrist að mestu leyti af varúðarfærslum vegna COVID-19. Rekstrarkostnaður nam 4.004 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum ársins og hækkaði um 0,3% á milli ára, sem var í samræmi við áætlanir.

Í lok september 2020 námu heildareignir 114,7 milljörðum króna samanborið við 105,6 milljarða króna í lok árs 2019. Útlán til viðskiptavina námu 28,7 milljörðum króna í lok september og drógust saman um 1,4 milljarða króna á tímabilinu. Lausafjárstaða bankans er mjög sterk, handbært fé og innstæður í Seðlabanka námu 28,1 milljarði króna í lok september en því til viðbótar námu ríkistryggð skuldabréf 26,5 milljörðum króna. Lausafjárhlutfall var 321% í lok september samanborið við 246% í lok árs 2019 og var langt umfram kröfur um 100% lágmarksþekju.

Eigið fé nam 17,8 milljörðum króna og var áhættuvegið eiginfjárhlutfall 26,9% að teknu tilliti til arðgreiðslustefnu bankans sem segir til um að greiða eigi út 25% af hagnaði sem arð (27,6% að teknu tilliti til hagnaðar á þriðja ársfjórðungi), samanborið við 24,1% í lok árs 2019. Var eiginfjárhlutfallið talsvert umfram 20,6% eiginfjárkröfu eftirlitsaðila, sem síðast var uppfærð þann 18. mars 2020.

Afkomuáætlun Kviku fyrir árið 2020 hefur verið uppfærð. Miðgildi spár um hagnað fyrir skatta hefur verið hækkað um 150 milljónir króna og gerir ráð fyrir að hagnaður fyrir skatta á árinu verði á bilinu 2.000 – 2.300 milljónir króna. Breyting á afkomuspá skýrist einkum af betri afkomu af eignastýringarstarfsemi, sterkri verkefnastöðu í fyrirtækjaráðgjöf og hækkun á hreinum fjárfestingartekjum.

Í uppgjöri bankans kemur enn fremur fram að „eigendur tiltekinna fasteigna“ hafi stefnt bankanum og „nokkrum öðrum“ til óskiptrar greiðslu 316 milljóna króna auk vaxta. Ekki er tekið fram hvaða aðrir aðilar eru að málinu. Kvika hefur hafnað greiðslukröfunni og telur hana ekki eiga rétt á sér.