Lausn Icesave-deilunnar var forsenda þess að hægt væri að fjármagna að fullu þá efnahagsáætlun sem íslensk stjórnvöld höfðu sent Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til afgreiðslu.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar sem lögð hefur verið fram á Alþingi.

Í ályktuninni er lagt til að Alþingi feli ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu „á grundvelli þeirra sameiginlegu viðmiða sem aðilar hafa komið sér saman um," eins og það er orðað í tillögunni.

Lagatúlkun Íslands hafnað af ESB

Í skýringum með tillögunni segir, að þegar bankarnir hafi hrunið, hafi komið í ljós að umtalsverðar fjárhæðir voru á innlánsreikningum í útibúum íslenskra banka í Evrópu. Þessar fjárhæðir hafi að stærstum hluta verið til á innlánsreikningum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi, svokölluðum Icesave- reikningum.

Greint er frá því að íslensk stjórnvöld hafi ekki verið tilbúin til að fallast á að íslenska ríkinu bæri að ábyrgjast greiðslur til innlánseigenda ef þær færu fram úr því sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta gæti staðið undir af inngreiðslum í sjóðinn.

„Hafa þau haldið því skýrt til haga í öllum sínum viðræðum við stjórnvöld viðkomandi ríkja að þau telji að vafi leiki á um ábyrgð ríkja á tryggingarsjóðnum, ekki síst undir kringumstæðum þar sem fjármálakerfi aðildarríkis hrynur nánast að fullu eins og reyndin er hér á landi," segir í skýringum tillögunnar og því bætt við að þessari lagatúlkun hafi verið hafnað af þeim ríkjum sem hlut ættu að máli svo og af Evrópusambandinu.

Töluðu einum rómi

Íslensk stjórnvöld hafi því lagt áherslu á  að fá úr málinu skorið fyrir viðeigandi úrskurðaraðila eða dómstól. Því hafi aðildarríki Evrópusambandsins einnig alfarið hafnað.

Fram kemur að ríki Evrópusambandsins hafi talað einum rómi í málinu og að þau hafi lagt kapp á að ábyrgð Íslands skýrðist sem allra fyrst.

„Sama átti við um starfshóp norrænu ríkjanna um lánafyrirgreiðslu við Ísland sem starfaði í framhaldi af fundi forsætisráðherra Norðurlandanna á þingi Norðurlandaráðs í Helsinki. Þannig varð ljóst að lausn þessa máls væri forsenda þess að hægt væri að fjármagna að fullu þá efnahagsáætlun sem íslensk stjórnvöld höfðu sent Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til afgreiðslu og að Ísland stæði einangrað ef pólitískri samningaleið væri hafnað."

Sjá þingsályktunartillögunar í heild hér.