Umræður um fjárlagafrumvarpið á Alþingi í dag hafa frestast. Ástæðan er sú að skriður hefur komist á kjaraviðræður. Fyrr í dag fengu forystumenn ríkisstjórnarinnar skilaboð frá aðilum vinnumarkaðarins um að til þess að sú lausn sem er til umræðu krefðist aðkomu ríkisstjórnarinnar og Alþingis.

Fram kom í kvöldfréttum RÚV að sú lausn fælist í því að fallið verði frá lækkun tekjuskattsprósentu í miðþrepi ef mörgun milli lægsta þreps og miðþreps tekjuskatts yrðu hækkuð. Þannig myndi þeim sem eru í miðþrepi tekjuskattsins fækka en þeim sem eru í lægsta þrepi fjölga. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, hefur setið á fundi með formönnum aðildarfélaga og rætt þessa lausn í kvöld.

Bjarni Bendediktsson fjármálaráðherra sagði í samtali við RÚV að eftir stæðu eins og hálfs til tveggja tíma umræðum um fjárlagafrumvarpið. Varla væri hægt að bíða mikið lengur eftir því að þær umræður hefjist.