CCQ hugbúnaðarlausnin frá Origo komst í lokaúrslit Beacon nýsköpunarkeppni tæknirisans IBM, en hátt í 500 lausnir alls staðar að úr heiminum tóku þátt í keppninni.

Markmið keppninnar er að hvetja samstarfsaðila IBM til þróunar á lausnum sem skapa aukið virði og stuðla að jákvæðum breytingum hjá viðskiptavinum. CCQ, sem stendur fyrir Cloud Compliance & Quality upp á enska tungu, er gæðastjórnunarlausn í skýinu og byggir á gæðahandbók, ábendingum, áhættustjórnun, úttektum, eignastýringu og hæfnisstjórnun.

Hákon Sigurhansson, framkvæmdastjóri Hugbúnaðarlausna Origo segir árangur CCQ hafa komið skemmtilega á óvart. „Við höfum lagt mikla áherslu á þróun eigin hugbúnaðarlausna enda teljum við að þar liggi helstu vaxtasprotar félagsins til framtíðar,“ segir Hákon.

„Við höfum skynjað afar góða eftirspurn eftir CCQ á íslenskum markaði ekki síst vegna þess að hún styður við GDPR, nýja persónuverndarreglugerð ESB, sem tekur gildi í lok maí. Jafnframt gerum við okkur vonir um að lausnin nái eyrum viðskiptavina víðar þegar fram líða stundir, enda einstök lausn og býr yfir mikilli sérstöðu.“