*

miðvikudagur, 23. september 2020
Innlent 25. janúar 2020 19:01

Lausn sem hentar ferðaþjónustunni

Greiðsluþjónustufyrirtækið myPOS býður upp á posalausn þar sem uppgjör til söluaðilans fer fram samstundis.

Sveinn Ólafur Melsted
Hafþór Sigmundsson, framkvæmdastjóri myPOS á Íslandi.
Gígja Einars

Fyrirtækið myPOS er fyrsta fyrirtækið í Evrópu sem býður upp á posalausn þar sem uppgjör til söluaðilans fer fram samstundis, þ.e. greiðslan fer á sama andartakinu beint úr posanum og inn á reikning söluaðilans. Fyrirtækið, sem er með höfuðstöðvar í London, hóf árið 2017 að veita greiðsluþjónustu á Íslandi og allar götur síðan hefur viðskiptavinum á Íslandi fjölgað hratt, að sögn Hafþórs Sigmundssonar, framkvæmdastjóra myPOS á Íslandi.

„Fyrirtækið hóf að veita greiðsluþjónustu árið 2014 og hefur síðan vaxið gríðarlega hratt og er í dag með um 100.000 viðskiptavini víðs vegar um Evrópu. Stofnun fyrirtækisins má rekja til þess að stofnendur þess vildu búa til nýjan og sérhannaðan vettvang sem byði upp á greiðsluþjónustu á sanngjarnara verði fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. MyPOS er í raun og veru allt í einum pakka, það er bæði færsluhirðir og rafeyrisfjármálastofnun. Viðskiptavinurinn fær posa, rafeyrisreikning í öllum þeim gjaldmiðlum sem honum hentar og debet-kort tengt reikningnum. Þannig er því engin þörf á þriðja aðila eða bankastofnun til að móttaka greiðslur frá færsluhirðinum."

Hafþór segir að myPOS skeri sig úr í samanburði við samkeppnisaðila með tvennum hætti.

„Viðskiptavinurinn kaupir posann og þarf því ekki að borga mánaðarleg leigugjöld líkt og tíðkast hefur á Íslandi. Þannig getur viðskiptavinurinn sparað sér háar fjárhæðir til lengri tíma litið og borgað upp posann með um það bil nokkurra mánaða leigu. Þar að auki gerir myPOS, eins og áður segir, upp samstundis bæði debetog kreditkortafærslur, en ekkert annað kortafyrirtæki býður upp á þann möguleika. Greiðslan er aðeins nokkrar sekúndur að skila sér frá posanum og inn á myPOS reikninginn þar sem söluaðilinn hefur samstundis aðgang að fjármunum sínum með því að nota debet-kortið sem fylgir reikningnum. Einnig getur viðskiptavinurinn millifært af myPOS reikningnum sínum til annarra fjármálastofnanna um allan heim og móttekið greiðslur með sama hætti og aðrir hefðbundnir bankareikningar."

Að ofangreindu má sjá að myPOS veitir ekki ósvipaða þjónustu og íslensku félögin Valitor, Borgun og Korta. Hafþór segist þó ekki líta svo á að myPOS sé í harðri samkeppni við fyrrnefnd félög.

„Þó svo að myPOS sé í samkeppni við færsluhirða víðs vegar um Evrópu, þá er ekki hægt að segja að myPOS sé í harðri samkeppni við íslensku kortafyrirtækin. En það er þó klárlega einhver samkeppni til staðar. Varan og þjónustan sem myPOS býður upp á er mun umfangsmeiri en tíðkast hefur hér á landi. Viðskiptavinurinn fær erlenda IBAN reikninga með debet-kortum fyrir hvern og einn gjaldeyrisreikning sem hann óskar eftir. Að auki kaupir viðskiptavinurinn posann í stað þess að leigja hann, eins og hefð hefur verið fyrir á meðal hinna korta fyrirtækjanna. Verðin á posunum er frá 6.900 krónum og upp í allt að tæplega 50.000 krónur. Frítt SIM-kort fylgir þeim öllum og flestir þeirra bjóða einnig upp á WiFi tengingarmöguleika."

Hafþór segir að myPOS sé kjörin lausn fyrir ferðaþjónustufyrirtæki. 

„Söluaðilinn getur með lausnum myPOS sent greiðslubeiðni eða tekið símgreiðslu í hvaða mynt sem er. Greiðslubeiðni er vefhlekkur sem sendur er til greiðandans, og fyllir hann þar út sínar kortaupplýsingar sjálfur, en í dag eru margir sem eru smeykir við að gefa upp kortaupplýsingarnar sínar í gegnum síma. Ef greiðandinn vill borga í EUR eða USD þá getur söluaðilinn sent greiðslubeiðni úr síma-appi myPOS, í þeirri mynt sem greiðandinn vill borga í. Svo fær viðskiptavinurinn greiðslubeiðnina gerða upp í þeirri mynt sem honum hentar. Þannig geta fyrirtækin t.d. haft verðskrána sína í dollurum fyrir Bandaríkjamenn, evrum fyrir Evrópubúa og svo í pundum fyrir Breta."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér