Áætlað er að stöðugleikaframlög slitabúa föllnu bankanna til stjórnvalda muni nema 500-600 milljörðum króna. Með framlögunum, langtímafjárfestingum í bankakerfinu upp á 226 milljarða króna og endurgreiðslum víkjandi lána ríkissjóðs til bankanna að verðmæti 74 milljarða króna er greiðslujafnaðarvandi sem af slitabúunum starfar leystur.

Þetta kom fram í kynningu þeirra Benedikts Gíslasonar og Sigurðar Hannessonar, varaformanna framkvæmdahóps um losun fjármagnshafta, á blaðamannafundi sem haldinn var í gær.

Áhættustöður stórhættulegar

Spurður um það hvort niðurstaðan sé sigur segir Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, ekki beinlínis líta á málið sem orrustu. „En ef við viljum nota hernaðarmál þá er hún [niðurstaðan] sigur. Hún er allavega mjög jákvæð fyrir Ísland,“ segir hann.

Már segist telja að hægt verði að aflétta höftum algjörlega á næsta ári. „Auðvitað verða einhverjar stífari varúðarreglur varðandi áhættu í bankakerfinu. En það eru ekki gjaldeyrishöft, það eru varúðarreglur settar á grundvelli fjármálastöðugleika," segir hann.

Hann segir að búast megi við að reglur um fjármagnsflutninga heimila og fyrirtækja milli landa verði jafn frjálsar og fyrir fjármálakreppuna. „En bankarnir geti ekki tekið eins mikla áhættustöðu eins og þeir gerðu áður. Enda var það stórhættulegt og verður stórhættulegt.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .