Íslensk ferðaþjónustufyrirtæki og verslanir geta nú boðið kínverskum ferðamönnum að versla eins og heima hjá sér. Greiðsluþjónustufyrirtækið Central Pay býður íslenskum fyrirtækjum greiðslulausnir fyrir Alipay og WeChat Pay á Íslandi en það eru tvær stærstu stafrænu greiðslulausnir á kínverskum markaði.

Snjallgreiðslumarkaðurinn í Kína er sá langstærsti í heiminum en árið 2016 fóru greiðslur fyrir um 9.000 milljarða dala eða sem nemur um 905.000 milljörðum íslenskra króna í gegnum snjallsíma þarlendis. Til samanburðar var bandaríski snjallgreiðslumarkaðurinn aðeins um 112 milljarðar dala árið 2016. Það má því segja að Kínverjar séu vanir því heima fyrir að geta greitt hvar og hvenær sem er með snjallsímanum.

Central Pay var að sögn Indriða Þrastar Gunnlaugssonar, framkvæmdastjóra Central Pay, stofnað í desember síðastliðnum en hann segir að hlutirnir hafi hreyfst hratt síðan félagið var stofnað. „Þetta byrjaði í rauninni þannig að ég bjó 13 ár í Noregi og les alltaf norsku viðskiptablöð- in og sá að þeir voru komnir með þessar lausnir í Noregi. Ég sendi línu á framkvæmdastjóra Apay sem er leyfishafi þar og það endaði þannig að þeir óskuðu eftir því að ég tæki verkefnið að mér á Íslandi.

Síðan þróast þetta eins og gengur og gerist hjá nýju fyrirtæki. Ég ákveð að stofna Central Pay og fæ Jón Jarl Þorgrímsson með mér í lið til þess. Við erum nýbúnir að fá posana og kláruðum samninginn í desember þannig að maður er búinn að vaka nokkrar nætur,“ segir Indriði.

„Núna erum við byrjaðir á fullu að selja okkar vöru. Við leigjum posana og sjáum um markaðssetningu fyrir fyrirtæki. Við skráum félög inn á Alipay-umhverfið og bjóðum einnig upp á að aðstoða við kynningarátök á þeim vettvangi,“ segir Indriði en allt er þetta á rafrænu umhverfi í snjallforritunum tveimur. „Kínverjar eru ekki með Facebook og Google heldur með sína eigin samfélagsmiðla og leitarvélar. Baidu er aðalleitarvélin og WeChat vinsælasti samfélagsmiðillinn þar í landi,“ bætir Indriði við en í snjallforritunum geta notendur þeirra leitað að Íslandi og séð hvað er í boði áður en þeir leggja af stað til landsins.

Í fyrra fóru 86.000 kínverskir borgarar um Flugstöð Leifs Eiríkssonar samkvæmt tölum af vef Ferðamálastofu en Indriði segir að spár geri ráð fyrir að þeim fjölgi í 108.000 á árinu 2018 og útgefnar tölur frá kínverskum stjórnvöldum bendi til þess að 300.000 kínverskir ferðamenn sæki Ísland heim árið 2020.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .