Sigurður Svansson, framkvæmdastjóri SAHARA, segir að þær samfélagsmiðlalausnir sem fyrirtækið bjóði upp á séu þrenns konar. „Í fyrsta lagi erum við að taka að okkur umsjón samfélagsmiðla eins og Facebook, Instagram og Twitter hjá fyrirtækjum,“ segir hann. „Í því felst að birta reglulega efni, svara viðskiptavinum og halda ásýndinni góðri fyrir fyrirtækið. Í öðru lagi veitum við efnissköpun og stuðning við samfélagsmiðla fyrirtækja. Við búum til efni fyrir fyrirtæki sem þau geta svo nýtt sér. Í samstarfi okkar við Senu Live til að mynda, þá er Sahara að taka upp beinar útsendingar og myndir en svo hafa þeir samfélagsmiðlastjórnanda sem notar efnið sem við útvegum á þeirra samfélagsmiðlum. Svo í þriðja lagi bjóðum við upp á ráðgjöf þar sem við förum yfir hvaða tækifæri liggja í samfélagsmiðlum fyrir fyrirtæki. Tækifærin eru jafn misjöfn eins og fyrirtækin eru mörg og því passa ekki allir miðlar fyrir öll fyrirtæki.“

Vöntun á þessari þjónustu

Þegar Sigurður er spurður út í hver kveikjan að þessu verkefni sé segir hann að það hafi verið vöntun á þessari þjónustu.„Það er mjög tímafrekt að sjá um samfélagsmiðlasíður. Mörg fyrirtæki hafa hvorki tíma, starfsmann né kunnáttu til að sinna þannig verkefnum, þá komum við inn með okkar þjónustu. Breytingarnar eru örar á samfélagsmiðlum, það þarf að viðhalda þekkingu til þess að geta fylgst vel með og vera með á nótunum. Sahara kemur inn með sérþekkingu og þekkingu sem er alltaf fersk á samfélagsmiðlunum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .