Karl Kristján Ásgeirsson er rekstrarstjóri 3X Technology á Ísafirði sem í samstarfi við Skagann hefur komið fram með ýmsar nýjungar í fiskvinnslu, en hann hefur mikla trú á lausnum fyrirtækisins og segir hann þá iðulega reyna að finna góðar lausnir fyrir viðskiptavinina.

Fjögur hundruð vörunúmer

„Þannig að við reynum að vera sveigjanlegir og standa með vörunum okkar. Við erum með fjögur hundruð vörunúmer á tilbúnum vörum, þannig að það er mjög margt sem við höfum fram að bjóða,“ segir Karl og nefnir meðal annars heildstæðar lausnir í vinnslu úr marning.

„Þar er verið að gera verðmæti úr fiskhryggjum eftir flökun. Þá tökum við fiskhryggina með svokallaðri hryggjarskurðarvél, þar sem við skerum blóðdálkinn og sundmagann frá og setjum hitt í marningsvél.

Brauðað til manneldis

Svo erum við með þvottatromlu sem þvær marninginn, því hann er blóðlitaður frá blóðinu í hryggjarsúlunni. Síðan pressum við vökvanum úr aftur svo við erum komnir á ný með rétt vatnsinnihald á marningnum. Loks erum við með pökkunarlínu við þetta, svo við erum með heildarlausn í því að gera verðmæti úr marningnum, þ.e. úr þessum fiskhryggjum sem annars færu bara til þurrkunar.“

Karl segir þetta gera meiri verðmæti úr marningnum og hann svarar því játandi að þetta sé notað til manneldis. „Já, það er gert á marga vegu, þetta er oft sagað niður og brauðað til dæmis.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .