*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Innlent 29. júlí 2021 10:02

Lausum störfum fjölgað mikið

Hlutfall lausra starfa af heildarfjölda starfa var um 4% á síðasta fjórðungi en hlutfallið hefur verið undir 2% frá lok árs 2019.

Snær Snæbjörnsson
Hlutfall lausra starfa í ferðaþjónustu var 12% á fjórðungnum.
Haraldur Guðjónsson

Lausum störfum fjölgaði verulega á öðrum ársfjórðungi þessa árs en um 7.600 störf voru í boði miðað við 3.600 á fjórðungnum á undan. Þetta  kemur fram í hagsjá Landsbankans

Hlutfall lausra starfa af heildarfjölda starfa var um 4% á fjórðungnum. „Á árinu 2019 voru laus störf upp undir 2% af fjölda starfa meginhluta ársins en síðan lækkaði hlutfallið á 4. ársfjórðungi og var nokkuð svipað allt fram á árið 2021,“ segir í Hagsjánni.

Flest þessara starfa eru í ferðaþjónustunni eða um 12%. Á fyrsta fjórðungi ársins 2020 var hlutfall lausra starfa í ferðaþjónustunni um 5% í en það hrapaði niður í 1,4% á öðrum fjórðungi og fór lægst í 0,2% á síðasta fjórðungi ársins 2020. 

Líkt og flestum er kunnugt um jókst atvinnuleysi verulega í faraldrinum. Hápunktinum var náð í janúar á þessu ári þegar það var 11,6% og 12,8% með hlutabótum. Á þessu ári hefur atvinnuleysi þó lækkað umtalsvert en það var 7,4% í júní. 

Upp á síðkastið hefur nokkuð borið á umræðu um að erfitt reynist að ráða í stöður. Til að mynda sagði forstjóri bílaleigu Akureyrar, Steingrímur Birgisson, í viðtali við bítið í lok maí að galið hve illa gengi að ráða í störf. Sagði hann meðal annars of marga á bótum hafa lítinn áhuga á að vinna. 

Staða launafólks virðist sterkari nú en áður og þurfa atvinnurekendur að bjóða betri kjör til að fá og halda í fólk. Í Bandaríkjunum hafa til að mynda met fallið í uppsögnum síðustu mánuði og íhuguðu ríflega þriðjungur Bandaríkjamanna að segja upp starfi sínu til að leyta grænni gresja.