Lausum störfum fjölgaði um 225 þúsund í Bandaríkjunum í september og í lok mánaðarins voru þau 3,35 milljónir samkvæmt tölum sem atvinnumálaráðuneyti landsins birti í dag. Svo mörg laus störf hafa ekki verið í landinu síðan í ágúst 2008 eða mánuði fyrir fall Lehman Brothers. Að sögn Bloomberg er þetta til marks um að bandarísk fyrirtæki séu farin að búa sig undir efnahagsbata á næstu misserum.

Þá fjölgaði ráðningum um 185 þúsund í september og alls var ráðið í 4,25 milljónir starfa. Á móti kemur að uppsögnum fjölgaði einnig. Þetta hljóta engu að síður að teljast góð tíðindi en þau hafa þó ekki valdið neinum stórum gleðikippum á bandarískum hlutabréfamörkuðum sem rakið er til tíðinda af veikri stöðu Silvio Berlusconi á Ítalíu.