Við höfum unnið að þessu lengi. Vinna við þetta hófst strax árið 2019 og undir lok síðasta árs voru teikn á lofti um að þetta myndi hafast,“ segir Guðmundur Páll Líndal, annar stofnenda Lava Cheese. Um miðjan þennan mánuð náði félagið samkomulagi um að vörur þess færu í miðlæga dreifingu hjá Coop, einni stærstu verslunarkeðju Svíþjóðar.

„Við áttuðum okkur ekki alveg á því í upphafi hversu mikil vinna það er að koma fætinum inn fyrir þröskuldinn, ná réttu samböndunum og útbreiðslunni þarna úti. Hér heima getur maður tekið upp tólið og hringt í þann sem stýrir málum hjá Bónus eða Krónunni en þarna úti þurftum við að hafa sölumann á launum við að rölta milli verslana og reyna að koma þessu inn,“ segir Guðmundur.

Jóhann Már Helgason, fjármálastjóri félagsins, samsinnir og segir að það hafi tekið talsverðan tíma að ná upp nægilegri sölu til að geta „rætt við stóru keðjurnar“.

Samningurinn núna þýðir að félagið mun fara með afurð sína, snakk úr bræddum osti, sem samkvæmt auglýsingum bragðast „nákvæmlega eins og osturinn sem festist við samlokugrillið“, beint í miðlæg vöruhús Coop sem síðan dreifir þeim til verslana sinna. Í stað þess að rölta á milli staða verður því nóg að senda allt á einn stað. Nú þegar er varan komin í um 130 verslanir víðs vegar um Svíþjóð og nýjar bætast við dag hvern.

„Þessi samningur einfaldar allan frekari vöxt. Næst er stefnan tekin á ICA, hina stóru keðjuna í Svíþjóð. Árangur hjá Coop auðveldar síðan innkomu á aðra markaði, á borð við Danmörku, önnur ríki Skandinavíu og Eystrasaltslöndin,“ segir Jóhann Már.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Starfsmenn Lava Cheese reyndu ostsnakk félagsins á hrauninu í Geldingadölum nýverið.

Lava Cheese var stofnað árið 2017 og hefur varan verið vinsæl hjá neytendum sem vilja takmarka kolvetnainntöku. Framleiðslan fer bæði fram á Íslandi og í Svíþjóð og um þessar mundir glímir félagið við lúxusvandamál.

„Ostur er lúxusvara og undirstaðan í okkar framleiðslu er ostur. Við munum því aldrei ná að keppa í verði við maísmjölssnakk. Það er hins vegar ákveðinn kjarni sem kýs „premium“ og heilsusamlegar vörur. Í óvissunni tengt faraldrinum, þegar harnaði í ári, fundum við fyrir mikilli velvild hjá fastahópi neytenda og erum ótrúlega þakklátir fyrir það,“ segir Guðmundur.

„Undanfarna tvo til þrjá mánuði höfum við síðan þurft að skala ansi hressilega upp og hefur það gengið þokkalega. Það er samt vandamál sem við kjósum frekar samanborið við það að hafa enga sölu.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Skrifstofa lögmannsstofunnar Logos í Lundúnum fagnar um þessar mundir 15 ára starfsafmæli. Guðmundur Oddsson, sem hefur stýrt skrifstofunni frá upphafi, segir frá starfseminni í bresku höfuðborginni.
  • Sagt er frá afkomu eins stærsta ferðaþjónustufyrirtækis landsins.
  • Fjallað er um stöðuna á fasteignamarkaðnum.
  • Nauðsynlegt er að gera breytingar á lögum um opinber fjármál eftir að heildarskuldir hins opinbera tvöfölduðust með einu pennastriki.
  • Verjandi Júlíusar Vífils Ingarssonar segir að dómur Hæstaréttar í máli borgarfulltrúans fyrrverandi kunni að hafa ófyrirséðar afleiðingar á íslenskan refsirétt.
  • Ítarlegt viðtal við forstjóra Bláfugls, sem á í kjaradeilu við flugmenn.
  • Óðinn fjallar um skattgreiðslur.
  • Týr er á sínum stað auk hrafnanna Hugins og Munins.