„Þetta er bara liður hjá okkur í því að minnka framboðið á veiðileyfum. Það er allt of mikið af framboði af ám í erfiðu árferði,“ segir Árni Baldursson, forstjóri Lax-ár. Morgunblaðið greindi frá því í dag að norska fyrirtækið Heggöy Aktív hefði tryggt sér leigurétt á Ytri Rangá. Norðmennirnir leigja fyrir 100 milljónir en Árni segir að Lax-á hafi boðið 80.

„Við náðum ekki samkomulagi um verð. Ég treysti mér ekki til þess að borga þessar hundrað,“ segir Árni í samtali við VB.is. Laxá mun áfram vera með Eystri-Rangá á leigu og segir Árni að um fimm ár séu eftir af þeim leigusamningi. „Þegar uppi er staðið er kannski betra að vera með eina Rangá fullselda en tvær Rangár hálfseldar,“ segir hann.

Árni segir að Lax-á hafi átt í erfiðleikum með að standa í skilum með leigu af þeim ám sem félagið hefur haft. „Þetta er búið að vera mjög erfitt ár en við erum búin að loka flestum uppgjörum og við erum að renna inn í næsta ár með hreint fyrir okkar dyrum. En ég leyni því ekki að þetta er búið að vera drulluerfitt,“ ítrekar Árni.

Hann bendir á að þa hafi verið veiðihrun í fyrra og kaupmáttur fólk sé ekki sá sami og hann var fyrir fimm til sex árum. „Þannig að það eru svolítið breyttar aðstæður núna og miklu miklu færri kaupendur af dýrum veiðileyfum en það var fyrir nokkrum árum,“ segir hann.