Verð á laxi á alþjóðlegum fiskmörkuðum hefur hækkað verulega upp á síðkastið og það nálgast nú sögulegt hámark, segir greiningardeild Landsbankans.

Verðið er um 450 íslenskar krónur á kílóið og hefur ekki verið hærra síðan um árið 2000. Sérfræðingar segja verðhækkanirnar einkum stafa af almennri eftirspurn eftir fiski, hræðslu almennings við fuglaflesnu og gríðarlegri eftirspurn eftir laxi í Rússlandi.

Drjúgur hluti tekna Alfesca kemur frá sölu á reyktum laxi og þess vegna hefur hækkun á laxaverði iðulega neikvæð áhrif á framlegð félagsins. Ef laxaverð heldur áfram að hækka, sem er ekki ólíklegt að mati sérfræðinga, mun það hafa umtalsverð áhrif á afkomu Alfesca, segir greiningardeildin.