Ef áætlanir Arnórs Björnssonar hjá Fjarðarlaxi um umsvifamikið laxeldi á sunnanverðum Vestfjörðum verða að veruleika þá verða þar til 130 til 150 ný störf og samtals um 300 vel launuð störf beint og óbeint vegna starfsemi fyrirtækisins. Til viðmiðunar búa nú um 1.300 manns á sunnanverðum Vestfjörðum. Eldið er þegar komið í gang og hófst slátrun þar á eldislaxi af fyrstu kynslóð í haust.

Arnór er aðaleigandi North Landing, fyrirtækis á austurströnd Bandaríkjanna sem flytur inn lax og vinnur fyrir stórkaupendur. Hann segir í samtali við sjómannadagsblað Fiskifrétta að fyrirtæki hans hafi þegar lagt tvo milljarða króna í verkefnið fyrir vestan auk þess sem Landsbankinn hefur styrkt það.

Stefnt er að því að laxeldi Fjarðarlax verði komið upp í 10.000 tonn af vottuðum gæðalaxi árið 2017 sem gæti skilað 6 til 8 milljörðum króna í útflutningstekjur.

Fjallað er nánar um fyrirætlanir Arnórs í ítarlegu viðtali við hann í Fiskifréttum Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.