Eignarhaldsfélag gamla Landsbankans, LBI, hefur samið við fyrrum meðlimi slitastjórnar bankans um að slíta 14 milljóna evra, andvirði 2,3 milljarða króna, svokölluðum skaðleysissjóði sem verja átti þá gegn mögulegum málsóknum að því er Fréttablaðið greinir frá.

Í staðinn verður keypt ný og takmarkaðri trygging gegn mögulegum málsóknum á hendur þessum fyrrverandi starfsmönnum, sem fá að auki greiðslu upp á 2,58 milljónir evra, andvirði 420 milljóna króna.

Eftirtaldir njóta greiðslunnar nú:

  • Herdís Hallmarsdóttir, fyrrverandi formaður slitastjórnar LBI
  • Kristinn Bjarnason, sem sat í slitastjórn
  • Pétur Arnar Sverrisson, lögmaður og ráðgjafi LBI
  • dánarbú Halldórs Backmann, sem sat í slitastjórn en lést árið 2017.

Hins vegar fær Ársæll Hafsteinsson sem var um árabil framkvæmdastjóri LBI engar greiðslur við slit skaðleysissjóðsins.

Afgangurinn, eða um 11,55 milljónir evra, verða greiddar út til skuldabréfaeigenda LBI, en þeirra stærstu eru Anchorage Capital, Deustsche Bank, Taconic Capital, Goldman Sachs og Davidson Kempner.

Í júnílok námu heildareignir slitabúsins um 114 miljónum evra, sem samsvarar í dag um 18,5 milljörðum króna.