Seðlabanki Íslands hefur svarað bréfi gamla Landsbankans (LBI) varðandi beiðni um undanþágur frá ákvæðum laga um gjaldeyrismál í tengslum við lengingu og breytta skilmála skuldabréfa á milli LBI og Landsbankans hf.

Í beiðni LBI var farið fram á undanþágu frá gjaldeyrishöftum til þess að unnt væri að ljúka samkomulagi við Landsbankann um lengingu skuldabréfs sem Landsbankinn á að greiða þrotabúinu.

Í vor kynntu stjórnendur gamla og nýja bankans samkomulagið, sem snýst um að breyta skilmálum á skuldabréfinu. Í stað þess að lokagreiðsla þess verði 2018 átti að fresta henni til 2026. LBI gaf Seðlabankanum frest til dagsins í dag til þess að taka ákvörðun í málinu.

Seðlabankinn segir hins vegar í bréfi sínu að enn hafi ekki verið unnt að ljúka þeim athugunum og umræðum sem séu forsendur þess að geta tekið efnislega afstöðu til beiðnarinnar. Hins vegar hafi vinnu miðað vel og séu góðar líkur á að hægt verði að gefa efnislegt svar við erindinu á allra næstu vikum.