Franska blaðið Le Monde segir í úttekt í gær um íslensk efnahagslíf að Ísland standi frammi fyrir mikilli prófraun en þar er fjallað um þá gagnrýni sem fjármálageirinn hefur verið undir og hættuna á mögulegri kreppu.

Blaðið hefur eftir Árna Mathiesen, fjármálaráðherra að núverandi umrót á mörkuðum sé vissulega áhyggjuefni fyrir hagkerfi landsins. Árni tekur þó fram að yfirvöld hafi þegar brugðist við með því að tilkynna um lækkun skatta á fyrirtæki og fyrir liggi sparnaðaraðgerðir til að viðhalda stöðugleika.

Fjármálageirinn á stærð við hagkerfi Sviss

Í úttekt blaðsins kemur fram að íslensku bankarnir myndi um 60% Úrvalsvísitölunnar sem lækkað hefur um 79% frá því sumar.  Þá er sagt að starfsemi Kaupþings hafi verið svo að segja fryst og að FL Group hafi á síðasta ári tapað 67 milljörðum króna sem blaðið segir áfall.

„Fjármálageirinn er á stærð við hagkerfi Sviss, eða um áttföld landsframleiðsla Íslands,“ hefur blaðið eftir Guðmundi Magnússyni, prófessor við hagfræðideild Háskóla Íslands. Þá kemur fram að krosseignarhald sé mikið á milli banka og fjármálafyrirtækja og varar blaðið við því að gangi einu fjármálafyrirtæki illa geti það haft töluverð áhrif á önnur fjármálafyrirtæki þar sem þau séu háð hvert öðru.

Lausafjárstaða sögð góð

Blaðið hefur eftir Richard Portes, prófessor við London Business School að ekki þurfi að hafa áhyggjur af íslensku efnahagslífi. „Hlutabréfamarkaðir og vextir sveiflast mikið en það er í takt við almenna þróun á alþjóðavísu,“ segir Portes og telur nauðsynlegt að líta á Ísland í alþjóðlegu samhengi.

Le Monde segir og hefur eftir fleiri viðmælendum að lausafjárstaða íslensku bankanna sé góð og starfssemi þeirra vel tryggð en bankarnir hafi meðal annars sýnt góða afkomu fyrir síðasta ár.

Ísland sagt betur statt en önnur Evrópuríki

Nicolas Bouzou, hagfræðingur hjá ráðgjafafyrirtækinu Astéres segir Ísland betur undir það búið að takast á við niðursveiflu og ber þar Ísland saman við önnur Evrópuríki. Hann minnir á að íslensku bankarnir hafi farið í gegnum krísu árið 2006 og séu betur undirbúnir nú en þá.

Hins vegar efast hann um framíð landsins og segir Ísland vera hefðbundið dæmi um hagkerfi sem geti ofhitnað. Hann segir að ekki hafi tekist á hægja á þenslu heldur þvert á móti hafi hagkerfið verið keyrt áfram á fullum hraða og þá gjarnan með tilstuðlan hins opinbera og vísar í leiðinni til þess að hér hafi verðbólga verið nokkuð há undanfarin misseri. Bouzou telur  að hægja muni á hagkerfinu en það muni að lokum rétta sig af, leiðrétta ójafnvægi og binda enda á útlánaþenslu.