Marine Le Pen, forsetaframbjóðandi National Front, í frönsku forsetakosningunum hitti Vladimir Pútín, Rússlandsforseta í dag. Á fundinum hvatti hún meðal annars Evrópusambandið til þess að afnema viðskiptaþvinganir sem að sambandið hafi sett á Rússa í kjölfar afskiptum ríkisins á Krímskaganum. Þetta kemur fram í frétt BBC .

Le Pen er talin eiga raunhæfan möguleika á því að sigra forsetakosningarnar í Frakklandi og gæti þar með haft talsverð áhrif á horfur innan álfunnar. Pútín segir að Le Pen endurspegli nýja stjórnmálastefnu sem ryður sér nú rúms í Evrópu.

Að hennar mati hafa viðskiptaþvinganirnar haft þveröfug áhrif en upprunalega hafi verið gert ráð fyrir. Hún talaði í rússneska Dumunni og í máli hennar sagði hún að hún myndi vinna að því að afnema einnig bannlista Evrópusambandsins yfir ákveðna einstaklinga. Áður hefur Le Pen lýst því yfir að innlimun Rússa á Krímeu hafi verið lögmæt.

Pútín þurfti að verja fundarhöldin og sagði að fundurinn hafi ekki verið haldinn með það að leiðarljósi að hafa áhrif á kosningarnar í Frakklandi.