Leiðtogi frönsku þjóðfylkingarinnar, Marine Le Pen, mun taka 6 milljón evrur, eða sem nemur 716 milljón krónum, að láni frá föður sínum til að fjármagna kosningabaráttu sína.

Sjóður föður hennar og fyrrum formanns flokksins Jean-Marie Le Pen, Cotelec, mun fjármagna forsetaframboð hennar fyrir forsetakosningarnar sem haldnar verða í landinu 23. apríl næstkomandi.

„Aðalástæðan er sú að franskir bankar hafa neitað að lána og gera upp á milli frambjóðanda í því hverjum þeir lána og hverjum ekki,“ sagði varaformaður flokksins Florian Philippot í viðtali í gær.

Flokkurinn er í vandræðum með að safna þeim 20 milljón evrum sem hann þarf á að halda í kosningabaráttur ársins, bæði til forseta og þings, í kjölfar þess að lánadrottinn flokksins frá Rússlandi brást að því er fram kemur í frétt Bloomberg .

Þingkosningar verða í landinu 11. og 18. júní.