Deilur hafa vaknað upp innan breska Íhaldsflokksins í kjölfar viðtals við Theresu May leiðtoga flokksins og forsætisráðherra landsins að því er fram kemur í BBC .

Þær snúast þó ekki um neitt af því sem hún sagði í þessu viðtali sem tekið var á heimili hennar og fjallaði meðal annars um æsku hennar, heldur hvaða fötum hún kaus að vera í, þegar viðtalið var myndað.

Nánar tiltekið snúast deilurnar, sem þingmenn og fyrrum ráðherrar hafa blandað sér í, um brúnleitar leðurbuxur sem hún klæddist í, sem taldar eru hafa kostað 995 pund, eða sem nemur 140 þúsund krónum.

Vill geta útskýrt kaupin fyrir kjósendum sínum

Nicky Morgan fyrrum menntamálaráðherra sagði í viðtali í kjölfarið að buxurnar hefðu verið ræddar meðal Íhaldsmanna en hennar mælikvarði væri alltaf í fatakaupum:

„Hvernig get ég útskýrt þetta á mörkuðum Loughborough?“ Morgan er þingmaður fyrir svæðið.

Annar þingmaður flokksins, Nadine Dorries gagnrýndi í kjölfarið Morgan og sagði orð hennar vera sýna kynjafordóma, því hún hefði aldrei gagnrýnt dýr jakkaföt David Cameron. Morgan komst svo að því að boð hennar á fund í aðsetri forsætisráðherrans við Downing stræti var síðan dregið til baka.

Theresa May rak Morgan úr ráðherrastól

Deilurnar snúast þó líklega ekki um buxurnar í raun, því Morgan var látin taka poka sinn sem ráðherra þegar Theresa May tók við forsætisráðherrastólnum, en hún hefur verið hávær talsmaður þess að ríkisstjórnin útlisti nákvæmlega hvernig hún ætli að draga Bretland út úr Evrópusambandinu.

Einnig hafa þær stöllur tekist á um önnur mál eins og menntamál þar sem hún talaði gegn auknum áherslum á sjálfstæða skóla auk fleiri mála.