Líftæknifyrirtækið Algalíf hefur fjárfest fyrir 350 milljónir króna í nýju og stærra húsnæði í Reykjanesbæ. Með kaupunum kemur  ný erlend fjárfesting til landsins en norskir eigendur fyrirtækisins hafa fjárfest rúmlega 3 milljörðum króna í fyrirtækinu.

„Kaup á húsnæðinu festir starfsemi fyrirtækisins á Íslandi enn frekar í sessi en Algalíf er leiðandi í heiminum í ræktun á örþörungum og framleiðslu virkra efna úr lífmassa þeirra. Til þessa hefur Algalíf sérhæft sig í ræktun örþörungsins Haematococcus pluvialis, sem virka efnið astaxanthin er unnið úr. Fyrirtækið hefur hafið þróun á ræktun á öðrum tegundum þörunga sem hægt er að vinna arðbærar afurðir eins og fæðubótarefni og matvæli úr,” segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Þá stefnir Algalíf á að skila rekstrarhagnaði árið 2018 og verulegum hagnaði á næsta ári. Velta fyrirtækisins verður að líkindum nálægt milljarði í ár en þar starfa 34 manns. Að sögn Orra Björnssonar, forstjóra Algalíf, eru húsakaupin mikilvægur áfangi í að tryggja hátæknistörf á Reykjanesi til framtíðar þrátt fyrir óhagstæð rekstrarskilyrði útflutningsfyrirtækja þessi misserin. Þar skipti mestu sveiflur í gengi íslensku krónunnar og hátt vaxtastig.