*

föstudagur, 17. september 2021
Innlent 26. júní 2021 07:22

Leggja 4 milljarða til viðbótar í hótel

Hlutafé félags utan um byggingu fimm stjörnu hótels við Hörpu hefur verið aukið um fjóra milljarða króna.

Sveinn Ólafur Melsted
Framkvæmdir við glæsihótelið Marriott Reykjavík Edition eru langt komnar og er stefnt að opnun þess síðsumars.
Eggert Jóhannesson

Hlutafé Cambridge Plaza Hotel Company ehf., félags utan um byggingu Marriott Reykjavík Edition hótelsins við Hörpu, var nú nýlega aukið um fjóra milljarða króna. Í kjölfar þessarar hlutafjáraukningar hefur meira fé verið sett í félagið en til stóð í upphafi. Herma heimildir Viðskiptablaðsins að ráðist hafi verið í hlutafjáraukninguna vegna aukins kostnaðar sem tafir við að opna hótelið hafa haft í för með sér. Þar hefur COVID-19 heimsfaraldurinn sett stórt strik í reikninginn. Upphaflega stóð til að hótelið yrði opnað árið 2018 en nú er stefnt á að það verði opnað síðsumars.

Eignarhlutur Mandólín hf., félags sem heldur utan um eignarhlut íslenskra fjárfesta í Cambridge Plaza Venture Company, mun í kjölfar hlutafjáraukningarinnar haldast óbreyttur, eða um 70%, samkvæmt heimildum blaðsins. Samkvæmt ársreikningum Mandólíns fyrir árin 2019 og 2020 var félagið búið að uppfylla öll áskriftarloforð í hóteluppbygginguna við Hörpu árið 2020, sem hljóðaði upp á 42 milljónir dollara. En eins og fyrr segir var ráðist í nýafstaðna hlutafjáraukningu til að bregðast við auknum kostnaði vegna þeirra tafa sem orðið hafa á verkefninu.

Framtakssjóðurinn SÍA III, sem rekinn er af verðbréfafyrirtækinu Stefni, á 49,9% hlut í Mandólín. Félögin Stormtré ehf., sem er í eigu Hreggviðs Jónssonar, og Snæból ehf., í eigu hjónanna Steinunnar Jónsdóttur og Finns R. Stefánssonar, eiga sitthvorn 12,5% hlut. Þá á Vitinn Reykjavík ehf. 9,4% hlut, en umrætt félag er 67% í eigu Vörðu Capital og eftirstandandi 33% eru í eigu ótilgreindra erlendra aðila. Loks á Almenni lífeyrissjóðurinn 6,2%, Festa lífeyrissjóður 5,4% og Feier ehf. 4,06% hlut í Mandólín. Feier er í jafnri eigu hjónanna Hjörleifs Jakobssonar og Hjördísar Ásberg.

Tap vegna gangvirðisbreytinga

735 milljóna króna tap var á rekstri Mandólíns á síðasta ári. Má rekja það til gangvirðisbreytinga í Cambridge Plaza  Venture Company ehf. vegna óvissu um áhrif Covid-19 á rekstur hótelsins. Í bókum Mandólíns er 70% hluturinn í hótelverkefninu metinn á rúma fjóra milljarða. Félagið lagði tæplega 1,3 milljarða í verkefnið á síðasta ári og var eigið fé í lok árs 4,1 milljarðar króna, sem er 17% hækkun á milli áranna 2019 og 2020.

Eftirstandandi 30% hlutur í félaginu utan um Edition-hótelverkefnið er í eigu bandaríska fasteignaþróunarfélagsins Carpenter & Company. Meðal hluthafa í bandaríska félaginu er fjárfestirinn Eggert Dagbjartsson. Til að byrja með lagði umrætt félag til meirihluta fjármagns inn í hótelverkefnið en það ku ávallt hafa staðið til að íslensku fjárfestarnir myndu smám saman eignast meirihluta í verkefninu með hlutafjáraukningum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér