Á morgun 1. nóvember gerir Icelandair grundvallarbreytingar á þjónustu sinni. Ný sæti og skemmtikerfi eru komin í flugflota félagsins, nýtt farrými verður opnað, flugliðar klæðast nýjum einkennisbúningum, og þjónustan um borð endurbætt á margvíslegan hátt.

Grunnþáttur í hinni nýju þjónustustefnu er áhersla á Ísland, íslenska náttúru og menningu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair.

„Í heild byggja þessar breytingar allar á einu meginatriði: Við erum að leggja aukna áherslu á sérstöðu Icelandair sem ÍSLENSKS flugfélags,“ segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair í tilkynningunni.

„Icelandair er lítið flugfélag á alþjóðlegan mælikvarða en hefur þó ákveðna sérstöðu og sú sérstaða er Ísland, landið, náttúruan, sagan og fólkið. Við teljum að þrátt fyrir allt sé okkur mikill styrkur að þessari sérstöðu og munum til framtíðar leggja höfuðáherslu í hana í þjónustu okkar. Við viljum að farþegar okkar finni sterkt fyrir því um borð að þeir séu á Íslandi”, segir

Ný sæti, nýtt farrými og nýir búningar

Þá kemur fram að fyrr á árinu hófst endurnýjun allra innréttinga í Boeing 757 þotum Icelandair sem er nú að ljúka. Skipt hefur verið um öll sæti og aðrar innréttingar í flugvélunum, og í staðin sett ný og þægileg leðursæti. Á sama tíma var bil milli sæta aukið.

Þá hefur verið sett upp afþreyingarkerfi, sem felur í sér að hver einasti farþegi hefur til eigin afnota skjá með fjölbreyttu skemmti- og fræðsluefni - nýjum og klassískum kvikmyndum, vinsælum sjónvarpsþáttum, tölvuleikjum osfrv.  Allt efnið er farþegum að kostnaðarlausu.

Þá mun Icelandair frá og með morgundeginum bjóða farþegum nýtt farrými um borð í flugvélum sínum, Economy-Comfort.

Um er að ræða nýjan valkost,  farrými með aukinni þjónustu og meira rými fyrir hvern farþega en í almennu farrými.

Í tengslum við þessa breytingu gerði Icelandair einnig breytingar á fargjaldaflokkum sínum og er sala samkvæmt nýja fyrirkomulaginu þegar hafin.

Economy-Comfort farrýmið er fyrir aftan SagaClass farrýmið í flugvélum Icelandair. Sætin eru þau sömu og í almennu farrými, en aðeins er selt í fjögur sæti af sex í hverri sætaröð og því er miðjusætið jafnan laust og eykur rými fyrir farþegana.

Á morgun verða einnig teknir í notkun nýir einkennisbúningar hjá Icelandair, sem eru unnir af Steinunni Sigurðardóttur.

Í tilkynningunni kemur fram að við hönnunina byggði Steinunn mynstur og efni á íslenskri náttúru og snið og merkingar á rúmlega 70 ára sögu fyrirtækisins og íslenskri flugsögu. Búningarnir eru dökk bláir og hvítir, og stórglæsilegir.